KR og norska liðið Lilleström hafa náð samkomulagi um markvarðarskipti. Stefán Logi Magnússon gengur í raðir Lilleström eftir síðari Evrópuleikinn gegn Basel í næstu viku en í dag kemur André Hansen til KR-inga frá Lilleström. Kristinn Kjærnested formaður knattspyrnudeildar KR staðfesti í samtali við mbl.is í morgun félögin hafi gert samning og er um leigusamning að ræða.
Henning Berg þjálfari Lilleström hefur lengi haft augastað á Stefáni Loga en fyrr á þessu ári var Stefán við æfingar hjá liðinu. Leigusamningurinn sem KR og Lilleström hefur gert gildir út tímabilið.
Stefán kemur til að verja mark KR-inga í leikjunum á móti Val í átta liða úrslitum bikarkeppninnar á sunnudaginn og í leiknum við Basel í næstu viku en síðan mun André Hansen leysa hann af hólmi og mun þá að óbreyttu standa á milli stanganna hjá vesturbæjarliðinu gegn Íslandsmeisturum FH í Kaplakrika um aðra helgi.
André Hansen er 19 ára gamall stór og stæðilegur markvörður sem hefur leikið tvo leiki með Lilleström á leiktíðinni. Hann þykir mikið efni og var á dögunum valinn í norska U-21 ára landsliðið.