„Ég veit ekki hvaða húmoristi dró í riðla fyrir undankeppnina en það alveg ljóst að okkar riðill er mun sterkari en aðrir í undankeppninni þar sem í okkar riðli eru Evrópumeistarar Þjóðverja og bronslið Frakka,“ segir Þorlákur Árnason, þjálfari landsliðs kvenna, skipaðs leikmönnum 17 ára og yngri. Liðið hefur keppni í undankeppni EM 2010 í dag en riðill íslenska liðsins verður leikinn hér heima næstu daga.
Auk Íslands og landanna tveggja sem Þorlákur nefnir í innganginum tekur lið Ísraels þátt. Alvaran hefst strax í dag þegar íslenska landsliðið tekur á móti Evrópumeisturum Þjóðverja á Vodafonevellinum, heimavelli Vals við Hlíðarenda kl. 15. Síðast þegar þjóðirnar mættust á Opna Norðurlandamótinu í vor unnu Þjóðverjar, 6:0.
„Þjóðverjar eru með afar sterkt lið í þessum aldursflokki. Þeir urðu Evrópumeistarar í vor og unnu til að mynda úrslitaleikinn við Spán, 7:0. Þá unnu Þjóðverjar Frakka, 4:1, í undanúrslitum. Engum vafa er undirorpið að þýska liðið er það langsterkasta í þessum riðli því uppistaðan í sigurliðinu á EM í vor er ennþá í liðinu,“ segir Þorlákur.
Í þýska liðinu er m.a. Kyra Malinowski sem þykir eitt mesta efni sem fram hefur komið í knattspyrnu kvenna, sannkallað undrabarn.
Nánar er rætt við Þorlák um mótið og liðið í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.