„Ég verð vonandi ekki í vinstri bakvarðarstöðunni hjá íslenska landsliðinu, það eru fáir íslenskir þjálfarar sem hafa hrósað mér fyrir varnartilburði fram til þessa,“ sagði Hólmfríður Magnúsdóttir landsliðskona í fótbolta í samtali við Morgunblaðið í gær í Serbíu.
Hólmfríður hefur á undanförnum tveimur vikum æft eins og „brjálæðingur“ með bandaríska atvinnumannaliðinu Philadelphia Independence. „Ég er að kynnast nýju landi, nýju liði og nýjum liðsféögum – og ég er líka að kynnast nýrri stöðu á vellinum. Hver hefði trúað því að Hólmfríður Magnúsdóttir yrði vinstri bakvörður,“ sagði Hólmfríður og hló.
Sjá nánar viðtal við Hólmfríði í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag og umfjöllun um leik Serbíu og Íslands. Hann hefst kl. 14 í Banatski Dvor og fylgst verður með gangi mála hér á mbl.is.