Miðasala gengur enn hægt á landsleik Dana og Íslendinga í undankeppni Evrópumóts karlalandsliða í knattspyrnu sem fram fer á Parken í Kaupmannahöfn á þriðjudaginn. Í gærkvöldi höfðu aðeins 15.359 miðar selst á leikinn en Parken völlurinn tekur 38.065 áhorfendur.
Forráðamenn danska knattspyrnusambandsins segja að miðaverðið sé ekki ástæðan fyrir því hversu lítill áhugi sé á leiknum sem er fyrsti leikur Dana í undankeppninni. Miðaverð á leikinn er frá 230 dönskum króna upp í 445 sem jafngildir 4.700- 9.100 íslenskum krónum.
Lars Berendt stjórnarmaður í danska knattspyrnusambandinu segir við danska blaðið Politiken að miðaverðið hafi ekkert með að gera hvað miðasöluna varðar og hann segir að það standi ekki til að lækka miðaverðið.
,,Með fullri virðingu fyrir íslenska landsliðinu er það ekki með leikmenn í sínum röðum sem dregur að áhorfendur,“ segir Lars Berendt við Politiken.