Danska knattspyrnufélagið Vejle-Kolding staðfesti rétt í þessu að skrifað hefði verið undir tveggja ára samning við Davíð Þór Viðarsson, sem félagið kaupir af Öster í Svíþjóð.
Eins og mbl.is skýrði frá í gærkvöld kvaddi Davíð lið Öster eftir toppslag gegn Brommapojkarna í sænsku B-deildinni og hélt í morgun til Danmerkur þar sem hann gekk frá samningnum í dag.
Vejle-Kolding er sameinað lið tveggja kunnra liða, Vejle og Kolding, en Vejle hefur lengst af spilað í úrvalsdeildinni og liðið hefur sett stefnuna á að komast þangað. Það spilar í B-deildinni og hefur unnið einn leik og gert þrjú jafntefli í fyrstu fjórum umferðunum.