Avaldsnes ræðir við Mörtu í vikunni

Marta hefur fimm sinnum verið kjörin besta knattspyrnukona heims.
Marta hefur fimm sinnum verið kjörin besta knattspyrnukona heims. AFP

Forráðamenn norska knattspyrnufélagsins Avaldsnes, sem landsliðskonurnar Hólmfríður Magnúsdóttir og Þórunn Helga Jónsdóttir spila með, segja að enn sé allt opið með að hin brasilíska Marta komi til liðsins frá Tyresö í Svíþjóð.

Arne Utvik, formaður og aðalstyrktaraðili Avaldsnes, sagði við NRK í dag að hann reiknaði með að viðræður við umboðsmann Mörtu færu af stað síðar í vikunni. Hún hefur verið ein albesta knattspyrnukona heims um árabil og fimm sinnum hlotið þá útnefningu í kjöri FIFA.

Upplýst hefur verið að Marta sé með þrjár milljónir íslenskra króna í mánaðarlaun hjá Tyresö en Utvik segir að Avaldsnes hafi efni á að ráða hana til sín. Hvort félagið sé tilbúið til að fallast á launakröfur hennar eigi hinsvegar eftir að koma í ljós.

„Það yrði hinvegar mjög sterkt fyrir norskan kvennafótbolta að fá Mörtu hingað og fjölmiðlar munu veita okkur mikið meiri athygli en áður," segir Utvik.

Avaldsnes lék í úrvalsdeildinni í fyrsta sinn í fyrra og endaði í fjórða sæti ásamt því að komast í bikarúrslitin. Mikið hefur verið rætt um þær upphæðir sem Utvik og Avaldsnes hafa lagt í liðið en hann segir að það sé ekki rétt að hann sé að kaupa árangur.

„Það er mikilvægt að menn átti sig á því að við höfum ekki keypt einn einasta leikmann. Við höfum boðið þeim að koma hingað og spila sem atvinnumenn, þar sem þeir geta einbeitt sér að fótboltanum og engu öðru. Norskir leikmennn vilja ekki koma til okkar en eftir að umræðan um Mörtu fór af stað hafa umboðsmenn góðra erlendra leikmanna látið vita af því að þeir vilji koma til okkar," segir Utvik um möguleikana á að fá meiri liðsauka, sem hann telur nauðsynlegan því aðeins séu 15 leikmenn í hópi Avaldsnes eins og er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert