Van Basten tekur við AZ Alkmaar í sumar

Marco van Basten.
Marco van Basten. AFP

Hollenska knattspyrnuliðið AZ Alkmaar sem þeir Jóhann Berg Guðmundsson og Aron Jóhannsson leika með tilkynnti í dag að það hafi náð samkomulagi við Marco van Basten um að hann taki við þjálfun liðsins í sumar.

Van Basten er þjálfari Heerenveen, sem Alfreð Finnbogason leikur með. Hann var búinn að gefa það út í vetur að hann myndi hætta þjálfun liðsins eftir tímabilið en Van Basten hefur þjálfað lið Heerenveen frá árinu 2012.

Hann hefur nú gert samkomulag við AZ Alkmaar um að taka við liðinu í sumar og mun samningur hans gilda til ársins 2016. Hann tekur við þjálfun liðsins af Dick Advocaat en han tók við liðinu til bráðabirgða um mitt tímabil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert