Avaldsnes spáð silfrinu í Noregi

Hólmfríður Magnúsdóttir í leik með Avaldsnes. Hún varð fjórða markahæst …
Hólmfríður Magnúsdóttir í leik með Avaldsnes. Hún varð fjórða markahæst í norsku úrvalsdeildinni í fyrra með 10 mörk.

Íslendingaliðinu Avaldsnes er spáð silfurverðlaununum í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á komandi keppnistímabili sem hefst í dag en liðið hafnaði í fjórða sæti í fyrra, á fyrsta ári sínu í deildinni, auk þess að komast í bikarúrslitin.

Það er netmiðillinn Fotballmagasinet.no sem metur styrkleika liðanna tólf í deildinni og samkvæmt sérfræðingunum þar er Avaldsnes það lið sem er líklegast til að veita meisturunum í Stabæk keppni um meistaratitilinn í ár. Aðrir spádómar hafa þó hnigið að því að það verði áfram Stabæk og Lilleström sem sláist um toppsætið. Avaldsnes lagði Stabæk að velli, 3:1, í lokaleik liðanna fyrir mótið á mánudaginn og hafði áður sigrað Lilleström.

Landsliðskonurnar Hólmfríður Magnúsdóttir og Þórunn Helga Jónsdóttir leika áfram með Avaldsnes en Íslendingunum hefur þó fækkað um helming því Mist Edvaldsdóttir fór þaðan til Vitoria í Brasilíu í haust og síðan í Val og Guðbjörg Gunnarsdóttir markvörður samdi við þýska stórliðið Turbine Potsdam.

Fotballmagasinet segir að nýr markvörður liðsins, Vivi, fái það hlutverk að leysa af hólmi einn besta markvörð heims, Guðbjörgu, sem hafi leikið sérstaklega vel seinni hluta síðasta tímabils.

Avaldsnes hefur styrkt sig talsvert í vetur og meðal annars fengið brasilísku landsliðskonuna Debinha sem Fotballmagasinet segir að verði tromp liðsins á komandi tímabili. Landa hennar Marta hefur ítrekað verið orðuð við félagið undanfarin en allt er á huldu ennþá um hvort Avaldsnes geri alvöru úr því að bjóða henni samning.

Avaldsnes sækir Medkila heim í fyrstu umferðinni í dag.

Fanndís Friðriksdóttir og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir leika með Arna-Björnar frá Bergen sem er spáð fjórða sætinu, eftir að hafa endað í því þriðja í fyrra. Fanndís kom til félagsins frá Kolbotn í vetur.

Þá er Jón Páll Pálmason tekinn við sem þjálfari Klepp, sem er spáð 8. sæti deildarinnar en hafnaði í því tíunda í fyrra.

Þjálfari Amazon Grimstad, sem spáð er botnsætinu í ár, er Vanja Stefanovic, serbneska landsliðskonan fyrrverandi sem lék á árum áður með Val, Breiðabliki, KR og Fjölni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert