Ronaldo segist vera í fínu lagi

Cristiano Ronaldo kveðst vera alheill og ekkert eftir sig eftir að hafa spilað í 75 mínútur með Real Madríd gegn Bayern München í fyrri undanúrslitaleik liðanna í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu í gærkvöld.

Ronaldo hafði misst af síðustu fjórum leikjum Real vegna meiðsla í fæti og tvísýnt var um þátttöku hans gegn Bayern fram á síðustu stundu. Óttast var að teflt væri í tvísýnu með að láta hann spila í gærkvöld.

„Ég hafði smá áhyggjur því þetta var minn fyrsti leikur í þrjár vikur en ég fann ekkert fyrir því  eftir leikinn. Ég verð í fullkomnu standi fyrir næstu leiki," sagði Ronaldo við Marca.

Real vann leikinn 1:0 en Ronaldo brenndi af úr dauðafæri í fyrri hálfleiknum og var ekki áberandi í leiknum. Seinni leikurinn fer fram í München næsta þriðjudagskvöld en Real mætir Osasuna í spænsku 1. deildinni á laugardagskvöldið.

David Alaba og Cristiano Ronaldo í leiknum í gærkvöld.
David Alaba og Cristiano Ronaldo í leiknum í gærkvöld. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert