Dunga tekur við af Scolari

Carlos Dunga.
Carlos Dunga. AFP

Brasilíska knattspyrnusambandið staðfesti fyrir stundu að Carlos Dunga tæki við sem landsliðsþjálfari Brasilíu í staðinn fyrir Luiz Felipe Scolari sem hætti störfum að lokinni heimsmeistarakeppninni á dögunum.

Dunga, sem sjálfur varð heimsmeistari sem leikmaður Brasilíu árið 1994, stýrði brasilíska liðinu áður á árunum 2006–2010 en var sagt upp eftir að liðið féll úr keppni gegn Hollendingum í átta liða úrslitum heimsmeistarakeppninnar í Suður-Afríku.

Hann er fimmtugur að aldri og spilaði í Brasilíu, Ítalíu, Þýskalandi og Japan, m.a. með Fiorentina og Stuttgart, á árunum 1980 til 2000 og lék 91 landsleik á árunum 1987 til 1998.

Dunga þjálfaði brasilíska liðið Internacional frá því í desember 2012 og þar til honum var sagt upp störfum þar í október 2013.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert