Real samdi við Rodríguez til sex ára

James Rodríguez.
James Rodríguez. AFP

Spænska knattspyrnufélagið Real Madríd tilkynnti rétt í þessu að gengið hefði verið frá kaupum á kólumbíska sóknartengiliðnum James Rodríguez frá Mónakó og samið við hann til sex ára.

Kaupverðið var ekki gefið upp en ljóst er að Kólumbíumaðurinn öflugi er kominn í hóp dýrustu knattspyrnumanna sögunnar og var þó fyrir ofarlega á þeim lista. Óstaðfestar fregnir herma að Real Madríd greiði fyrir hann 80 milljón evrur, jafnvirði 63 milljón punda. Það jafngildir um 12,4 milljörðum íslenskra króna.

Hann er nýorðinn 23 ára gamall og sló í gegn á heimsvísu á HM í Brasilíu þar sem hann fór fyrir skemmtilegu liði Kólumbíu og varð markakóngur keppninnar með 6 mörk.

Rodríguez hefur spilað í Evrópu undanfarin fjögur ár. Hann kom til Porto í Portúgal árið 2010 og var seldur þaðan til Mónakó síðasta sumar fyrir 45 milljón evrur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert