Löw með Þjóðverja framyfir EM 2016

Joachim Löw.
Joachim Löw. AFP

Joachim Löw tilkynnti fyrir stundu að hann yrði áfram landsliðsþjálfari Þýskalands í knattspyrnu næstu tvö árin, framyfir úrslitakeppni Evrópumótsins í Frakklandi sumarið 2016.

Þýskaland varð á dögunum heimsmeistari undir stjórn Löws. Hann tók við liðinu árið 2006, eftir að hafa verið aðstoðarmaður Jürgens Klinsmanns með það í tvö ár. Undir hans stjórn fékk liðið silfurverðlaun á Evrópumótinu 2008, bronsverðlaunin á heimsmeistaramótinu 2010 og komst í undanúrslit Evrópumótsins 2012, áður en Þjóðverjar lönduðu heimsmeistaratitlinum með 1:0 sigri á Argentínu í framlengdum úrslitaleik í Ríó de Janeiro fyrr í þessum mánuði.

Löw er fimmtugur og lék sjálfur með Freiburg, Stuttgart, Frankfurt og Karlsruher en lauk ferlinum í Sviss þar sem hann spilaði með Schaffhausen, Winterthur og Frauenfeld.

Hann hóf þjálfaraferilinn með Frauenfeld sem spilandi þjálfari en stýrði síðan Stuttgart, Fenerbache, Karlsruher, Adanaspor, Tirol Innsbruck og Austria Wien áður en hann var ráðinn til starfa hjá þýska knattspyrnusambandinu árið 2004.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert