Shakhtar flytur burt frá Donetsk

Mircea Lucescu þjálfari Shakhtar Donetsk.
Mircea Lucescu þjálfari Shakhtar Donetsk. AFP

Úkraínska knattspyrnuliðið Shakhtar Donetsk hefur flutt bækistöðvar sínar til Lviv í vesturhluta landsins og höfuðborgarinnar Kiev vegna átaka í Donetsk og nágrenni en heimaborg liðsins er helsta vígi aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu.

Lviv er í um 900 kílómetra fjarlægð frá Donetsk, skammt frá landamærum Úkraínu og Póllands.

Á dögunum neituðu sex erlendir leikmenn Shakhtar að snúa aftur með liðinu til Donetsk eftir að það lék æfingaleik í Frakklandi þar sem þeir óttuðust um öryggi sitt í borginni.

Liið mun dvelja í Kiev og æfa þar, og ferðast þaðan til Lviv til að spila heimaleiki sína í úkraínsku deildinni og Meistaradeild Evrópu.

Shakhtar vann Dynamo Kiev, 2:0, í opnunarleik keppnistímabilsins í Úkraínu sem fram fór í Lviv á þriðjudagskvöldið og Mircea Lucescu þjálfari sagði eftir leikinn að leikmenn sínir kynnu vel við  borgina og stemninguna á vellinum.

Arena Lviv, þar sem Shakhtar mun spila sína leiki, er einn af leikvöngunum sem notaðir voru í úrslitakeppni Evrópumótsins í Úkraínu og Póllandi fyrir tveimur árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert