Bale: Spænska deildin meira spennandi

Gareth Bale.
Gareth Bale. AFP

Welski knattspyrnumaðurinn hjá Real Madrid, Gareth Bale telur að spænska deildin sé ensku deildinni æðri þar sem hún nær að laða til sín alla bestu leikmenn heims um þessar mundir.

„Mér finnst spænska deildin meira spennandi. Hún hefur alla bestu knattspyrnumenn í heimi. Barcelona og Real Madrid eru alltaf í Meistaradeildinni, annað hvort að vinna hana eða mjög nálægt því,“ sagði Bale.

„Enska deildin er frábær deild. Það er ekki mikill munur á þeim. En spænska deildin er að laða að sér bestu leikmennina og gera hana meira spennandi. Það er frábært að fá að vera hluti af því,“ sagði Bale sem er ánægður með nýjustu kaup Spánarrisans, James Rodríguez en eins og frægt er orðið gekk einnig Luis Suárez til leiks við Barcelona á dögunum.

„Kaupin á James voru frábær. Hann sýndi á HM hvað hann getur og vonandi spilar hann eins fyrir Real Madrid og hann gerði fyrir Kólumbíu,“ sagði Bale sem segist alltaf líða betur og betur á Spáni.

„Þetta var erfitt fyrst. En hópurinn er góður og þeir buðu mig velkominn strax. Margir þeirra töluðu ensku sem hjálpaði  mér.  Það var erfitt að venjast loftslaginu, en ég hef frábært lið í kringum mig sem hjálpar til.  Það tók smá tíma að venjast hlutunum en mér líður mjög vel núna,“ sagði Bale.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert