Fengu að gera skiptingu eftir rauð spjöld

Dómari leiksins lyftir rauða spjaldinu einu sinni sem oftar í …
Dómari leiksins lyftir rauða spjaldinu einu sinni sem oftar í gær.

Það var mikill hasar í æfingaleik enska C-deildarliðsins Coventry og gríska liðsins AEL Kalloni í gær, en þegar tæpur hálftími var liðinn af leiknum hafði dómarinn fjórum sinnum veifað rauða spjaldinu, tvisvar á kjaft.

Danny Pugh hjá Coventri og Paul Keite hjá gríska liðinu fengu rautt eftir að hafa lent saman á vellinum, en þar sem um æfingaleik var að ræða leyfði dómarinn liðunum að skipta mönnum inn á í þeirra stað.

Það virðist ekki hafa róað mannskapinn, því aftur fór rauða spjaldið á loft og nú með tveggja mínútna millibili.Fyrst fékk Manuel Delgado hjá Grikkjunum rautt fyrir að slá til andstæðings áður en Coventry missti Billy Daniels af velli fyrir grófa tæklingu.

Dómarinn var ekki á því að leyfa aðra skiptingu eftir rauðu spjöldin og því kláruðu liðin leikinn einum færri, en lokatölur urðu 0:0.

„Ég hef aldrei séð neitt þessu líkt,“ sagði Steven Pressley, stjóri Coventry, eftir leikinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert