Fyrsti leikur Mörtu í sigri Rosengård

Sara Björk Gunnarsdóttir er með Rosengård á toppi sænsku úrvalsdeildarinnar.
Sara Björk Gunnarsdóttir er með Rosengård á toppi sænsku úrvalsdeildarinnar. mbl.is/Styrmir Kári

Sara Björk Gunnarsdóttir og stöllur í Rosengård styrktu stöðu sína á toppi sænsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í kvöld með 2:1-sigri á Umeå. Sara bar að vanda fyrirliðabandið og lék allan leikinn.

Anja Mittag og Anita Asante skoruðu mörk Rosengård í fyrri hálfleik en Lina Hurtig minnkaði muninn sjö mínútum fyrir leikslok.

Hin brasilíska Marta, sem á árum áður lék með Umeå en gekk í sumar til liðs við Rosengård frá Tyresö, kom inná 20 mínútum fyrir leikslok í sínum fyrsta leik fyrir meistarana.

Rosengård er nú með þriggja stiga forskot á Örebro og mun betri markatölu, þegar 11 umferðum er lokið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert