Suárez fær flýtimeðferð

Luis Suárez er í banni frá æfingum með Barcelona eftir …
Luis Suárez er í banni frá æfingum með Barcelona eftir bitið fræga á HM. AFP

Barcelona leitar nú allra leiða til þess að framherjinn Luis Suárez geti hafið æfingar með liðinu sem fyrst en standi bannið sem hann fékk í sumar má hann ekki æfa með liðinu fyrr en seint í október.

Alþjóða íþróttadómstóllinn, CAS, hefur samþykkt að flýta fyrirtöku vegna áfrýjunar bannsins og mun Suárez koma fyrir dómstólinn eftir slétta viku, 8. ágúst, og útskýra sitt mál. Áætlað er að niðurstaða muni liggja fyrir nokkrum dögum síðar og ef hún verður eins og Börsungar vonast eftir gæti Suárez því hafið æfingar um miðjan mánuðinn.

Suárez fékk fjögurra mánaða bann hjá FIFA, bæði frá æfingum og keppni, fyrir að bíta Giorgio Chiellini í leik Úrúgvæ og Ítalíu á HM. Eftir mótið var hann svo seldur frá Liverpool til Barcelona. Ef ekkert breytist gæti hann spilað fyrsta leik sinn fyrir Barcelona þegar liðið mætir Real Madrid 25. október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert