Van Gaal hrinti Piqué í heimsókn hjá afa

Louis Van Gaal er harður í horn að taka.
Louis Van Gaal er harður í horn að taka. AFP

Gerard Piqué, varnarmaður Barcelona og spænska landsliðsins, hefur stimplað sig inn sem einn besti miðvörður í heimi. En hvernig varð hann að þeim manni sem hann er í dag? Með því að verða hrint af Louis van Gaal, miðað við eftirfarandi frásögn.

Piqué ólst upp í unglingaliði Barcelona þegar van Gaal var þar knattspyrnustjóri. Afi Piqué var varaforseti félagsins og átti í nánu sambandi við hollenska stjórann.

„Ég var 12 eða 13 ára og var heima hjá afa, þegar van Gaal kom í heimsókn. Hann vissi að ég væri í unglingaliði félagsins og hrinti mér svo ég féll til jarðar. Þá sagði hann við mig að ég væri greinilega ekki nógu harður af mér til að vera miðvörður,“ sagði Piqué um fyrstu kynni sín af þeim hollenska. Hann hefur greinilega tekið þetta til sín og hefur laglega afsannað þau ummæli í dag.

„Hann heldur uppi góðum aga og ég held að hann muni gera frábæra hluti hjá Manchester United.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert