Vesna Elísa sá um Ísrael

Vesna Smiljkovic sá um Ísrael í dag.
Vesna Smiljkovic sá um Ísrael í dag. mbl.is/Kristinn

Serbía sigraði Ísrael í dag í riðli Íslands í undankeppni HM 2015 í knattspyrnu kvenna, 3:0 í Serbíu. Vesna Elísa Smiljkovic leikmaður ÍBV í Pepsi-deild kvenna var í aðalhlutverki í sigri Serba. Vesna, sem er fyrirliði serbneska landsliðsins og með tvöfalt ríkisfang, íslenskt og serbneskt, skoraði tvö fyrstu mörk liðsins gegn Ísrael í dag, en Biljana Bradic þriðja markið.

Þar með eru Serbar komnir með 10 stig eftir 9 leiki í riðlinum og upp í 4. sæti. Ísrael er í 5. sæti með 9 stig eftir átta leiki. Úrslitin í leik Serbíu og Ísraels þýða það að ef Ísland vinnur Danmörku á Laugardalsvelli í kvöld getur Ísland ekki endað neðar en í 3. sæti í riðlinum.

Ætli Ísland sér hins vegar að eiga möguleika á umspili allt til enda, verður Ísland að vinna Danmörku í kvöld og sömuleiðis Ísrael, laugardaginn 13. september og Serbíu miðvikudaginn 17. september, en allir leikirnir þrír sem Ísland á eftir í riðlinum verða á Laugardalsvelli.

Fyrir leik Íslands og Danmerkur í kvöld hafa Íslendingar 13 stig í 2. sæti eftir 7 leiki en Danir 12 stig eftir jafnmarga leiki. Leikur Íslands og Danmerkur hefst klukkan 19.30 í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert