David James kominn til Indlands

David James lék síðast með ÍBV í Vestmannaeyjum þar sem …
David James lék síðast með ÍBV í Vestmannaeyjum þar sem hann var einnig aðstoðarþjálfari. mbl.is/Ómar

David James, fyrrverandi markvörður enska landsliðsins og ÍBV, er kominn til Indlands þar sem hann verður spilandi þjálfari Kerala Blasters í hinni nýju indversku ofurdeild.

James spilaði síðast fótbolta þegar hann var hjá ÍBV í fyrra og hann segist alveg vera í stakk búinn til að halda áfram að spila.

„Aldur er afstæður. Hvað mig varðar þá spilaði ég á Íslandi í fyrra svo ég er alveg í formi til að spila,“ sagði James við India Today.

James varð gjaldþrota í maí á þessu ári og það kann að spila inn í ákvörðun hans um að lengja í atvinnumannsferlinum. James hefur einnig mikinn hug á að starfa sem þjálfari, og var aðstoðarmaður Hermanns Hreiðarssonar í fyrra, og hann greip því tækifærið þegar það bauðst á Indlandi.

Indverska deildin var stofnuð í lok síðasta árs og fyrsta tímabil hennar hefst 12. október og stendur yfir fram til 20. desember.

James, sem er 43 ára gamall, hefur þegar fengið landa sinn Michael Chopra til liðs við sig en þessi þrítugi framherji sem áður lék með liðum á borð við Newcastle, Cardiff og Sunderland var síðast á mála hjá Blackpool.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert