Hallgrímur: Spennandi að fara í stærra félag

Hallgrímur Jónasson skallar boltann í vináttulandsleiknum gegn Eistlandi í júní.
Hallgrímur Jónasson skallar boltann í vináttulandsleiknum gegn Eistlandi í júní. mbl.is/Golli

„Ég hlakka til og það verður spennandi að fara í stærra félag,“ sagði Hallgrímur Jónasson eftir að hafa skrifað undir samning við danska úrvalsdeildarfélagið OB en hann gengur í raðir félagsins frá SönderjyskE um áramótin.

„Ég þekki OB ágætlega og þekki leikstílinn sem ég kann mjög vel við. Þetta er lið sem vill gjarnan spila boltanum niðri, lið með marga unga leikmenn sem getur því náð langt. Ég hlakka til að verða hluti af því, og ég hlakka til að koma til Odense sem er góður bær, líka hvað fótboltann varðar. Stuðningsmennirnir styðja vel við liðið,“ sagði Hallgrímur við heimasíðu OB.

Hjá liðinu hittir hann fyrir Ara Frey Skúlason, liðsfélaga sinn úr íslenska landsliðinu.

„Við erum herbergisfélagar í landsliðinu svo það verður auðvitað gaman að vera liðsfélagi hans hjá OB. En svo mun ég upplifa fullt af nýjum hlutum í nýju félagi, með nýja liðsfélaga, nýja stuðningsmenn, í nýjum bæ, með nýjan þjálfara og svo framvegis. Það verður virkilega spennandi,“ sagði Hallgrímur.

Hallgrímur samdi við OB til tveggja ára en hann verður áfram leikmaður SönderjyskE fram til áramóta. Hallgrímur segir að yfirvofandi vistaskipti muni ekki trufla sig.

„Það verður ekkert erfitt að halda einbeitingu og auðvitað legg ég mig allan fram fyrir SönderjyskE fram til áramóta. Ég fer ekki að bregðast liðinu sem ég tilheyri, liði sem ég hef notið þess að vera hjá í þrjú ár,“ sagði Hallgrímur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert