Del Piero farinn til Indlands

Alessandro Del Piero í lokaleik sínum fyrir Sydney FC í …
Alessandro Del Piero í lokaleik sínum fyrir Sydney FC í Ástralíu í vor. Hann er nú á leið til Indlands. AFP

Ítalski framherjinn Alessandro Del Piero hefur samið við indverska félagið Delhi Dynamos um að leika með liði þeirra í nýrri indverskri knattspyrnudeild. Þá mun Del Piero vera sérstakur sendiherra þessarar nýju deildar og er ætlað að hjálpa til við að koma henni á kortið.

Del Piero hefur síðustu tvö ár gert svipaða hluti í Ástralíu, þar sem hann var á mála hjá Sydney FC og skoraði þar 24 mörk í 48 leikjum eftir að hafa yfirgefið Juventus.

„Ég vildi ekki fara á kunnuglegar slóðir, gera það sem ég hef áður gert og upplifa það sem ég hef upplifað áður. Ég var að leita að einhverju einstöku og þetta passar frábærlega þar inn,“ sagði Del Piero.

Hann verður ekki eini gamli stjörnuframherjinn sem mun spila í þessari átta liða indversku deild, því hinn franski David Trezeguet hefur samið við FC Pune City, en þeir spiluðu saman hjá Juventus á sínum tíma. Þá munu þeir Robert Pires og Freddie Ljunberg einnig spila í deildinni sem og David James, sem tók að sér spilandi þjálfarastöðu hjá Kerala Blasters.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert