Ronaldo: Ótrúlega stoltur

Nadine Kessler og Cristiano Ronaldo sitja fyrir svörum á blaðamannafundinum …
Nadine Kessler og Cristiano Ronaldo sitja fyrir svörum á blaðamannafundinum í Mónakó. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Ég er geysilega ánægður með þessa kosningu og þetta er glæsilegur verðlaunagripur sem ég hef ekki áður átt í mínu safni," sagði Cristiano Ronaldo, portúgalski knattspyrnumaðurinn hjá Real Madríd, eftir að Evrópsku samtök íþróttafjölmiðla, ESM, og Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, kusu hann besta knattspyrnumann Evrópu tímabilið 2013-14 í Mónakó í gærkvöld.

„Ég er ótrúlega stoltur og þakka sérstaklega liðsfélögum mínum í Real Madríd því án þeirra hefði ég aldrei unnið þennan titil, og svo þakka ég ykkur íþróttafréttamönnum fyrir að hafa kosið mig. Voruð það ekki annars þið sem kusuð?" sagði Ronaldo brosandi og uppskar hlátur á fréttamannafundinum eftir kjörið.

„Þetta var erfitt ár, við lögðum geysilega hart að okkur á æfingum og í leikjum, en uppskeran var frábær og tímabilið var sannkallað draumatímabil fyrir mig sem einstakling. Ég átti ekki von á að það yrði svona magnað og er geysilega stoltur af hvernig til tókst.

Hvað portúgalska landsliðið varðar þá vorum við í erfiðum riðli á HM og fótboltinn er bara svona - það er ekki hægt að vinna allt, en við gerðum okkar besta. Hinsvegar voru það Þjóðverjar sem unnu heimsmeistaratitilinn og gerðu það verðskuldað. Þeir voru besta lið mótsins," sagði Ronaldo á fundinum en hann skoraði öll mörk Portúgala þegar þeir unnu Svía samanlagt 4:2 í umspili um sæti á HM í Brasilíu, þar sem liðið komst svo ekki áfram úr sínum riðli.

Hann var spurður hvernig framhaldið yrði og hvort hægt væri að gera betur eftir að hafa skorað 17 mörk í Meistaradeildinni, bætt markametið þar, og tekið þátt í tíunda sigri Real Madrid.

„Ég held að sem atvinnumaður í fótbolta verði markmiðið alltaf að vera að bæta sig og ná lengra, gera eitthvað betra. Ég fékk viðurkenningu í dag fyrir það sem gerðist síðustu 12 mánuði og það var ekki einfalt. Það gekk margt á, fullt af leikjum, fullt af atvikum, meiðsli sem spiluðu inní, en þegar maður hefur lagt hart að sér er maður ótrúlega stoltur yfir því að það skuli hafa skilað sér í titlum og verðlaunum.

Ég elska að spila fótbolta, elska að vera alltaf í stórum leikjum, og það er stórkostlega að koma hingað vegna þessara verðlauna. Manuel Neuer og Arjen Robben eru hérna líka og hefðu líka verðskuldað þau fyrir að standa sig frábærlega. En að þessu sinni var ég valinn og það er frábært!"

Real vann granna sína í Atlético Madríd, 4:1, í framlengdum úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í Lissabon, á heimaslóðum Ronaldos, og hann gerði eitt markanna, sitt 17. í keppninni á tímabilinu.

„Það gat ekki verið betra að en að vinna þennan titil í Lissabon, og hann kórónaði stórkostlegt ár. Þetta var magnað fyrir alla okkar leikmenn og stuðningsmenn, og fyrir mig að vinna hann í Lissabon, frammi fyrir fjölskyldu minni og vinum, var frábært.

Það var margt líkt með því að vinna titilinn núna og með Manchester United 2008. En ég held að í þetta sinn hafi þetta verið enn magnaðra vegna sögu Real Madrid og þá er ég ekki að gera lítið úr Manchester United. Það var mikil pressa á okkur, liðið hafði ekki unnið þennan titil lengi og hafði fengið marga góða leikmenn. Þessvegna var þessi sigur svo ótrúlega sætur," sagði Cristiano Ronaldo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert