Skil ekki af hverju Viðar er að spila í Noregi

Viðar Örn Kjartansson á góða möguleika á að bæta markametið …
Viðar Örn Kjartansson á góða möguleika á að bæta markametið í Noregi. mbl.is/Eggert

Norðmenn keppast við að hrósa Selfyssingnum Viðari Erni Kjartanssyni sem farið hefur á kostum með Vålerenga og er langmarkahæstur í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í ár með 24 mörk, eftir að hafa skorað þrennu gegn Haugesund um helgina.

Viðar er í sigtinu hjá stærri knattspyrnufélögum utan Noregs en mun spila með Vålerenga til loka leiktíðarinnar í Noregi hið minnsta. Kjetil Rekdal, þjálfari Vålerenga, hefur auk þess látið hafa eftir sér að góður möguleiki sé á að Viðar verði áfram hjá félaginu á næsta ári.

Þjálfari Haugesund, Jostein Grindhaug, og markvörður liðsins, Per Morten Kristiansen, hafa báðir hrifist mjög af frammistöðu Viðars og Kristiansen furðar sig á því að Selfyssingurinn skuli vera að spila í Noregi.

„Þeir ættu að reyna að fá sem mestan pening fyrir hann. Hann er betri en búist var við. Hann er sterkur, með hraða og alveg guðdómlega hæfileika þegar kemur að því að klára færin,“ sagði Grindhaug við NRK.

„Hann hefur eitthvað aukalega. Hann skýtur þegar markvörðurinn heldur að hann ætli að bíða aðeins - taka eina snertingu í viðbót. Hann er góður í að snúa menn af sér og fljótur í skotinu, svo maður sér að hann hefur eitthvað aukalega sem aðrir hafa ekki. Ég skil ekki af hverju hann er að spila hérna í Noregi. Hann raðar inn mörkum,“ sagði Kristiansen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert