Félagar Kolbeins ætla að stöðva Zlatan

Kolbeinn Sigþórsson skorar nánast í hverjum leik fyrir íslenska landsliðið …
Kolbeinn Sigþórsson skorar nánast í hverjum leik fyrir íslenska landsliðið en hefur ekki gengið eins vel undanfarið með Ajax. mbl.is/Golli

Kolbeinn Sigþórsson og félagar hans í hollenska meistaraliðinu Ajax eiga fyrir höndum erfiðan leik í fyrsta leik sínum í Meistaradeild Evrópu í kvöld, en þeir taka á móti Paris Saint-Germain á heimavelli.

Í liði PSG eru margir góðir leikmenn eins og Ezequiel Lavezzi, Edinson Cavani, Javier Pastore og fleiri, en stórstjarna liðsins er án vafa Svíinn Zlatan Ibrahimovic.

„Það er mikil áskorun að stöðva Zlatan. Hann er mjög stór og með mjög mikla tækni,“ sagði Niklas Moisander, fyrirliði Ajax. Moisander hefur áður átt í höggi við Zlatan með finnska landsliðinu og tekist vel upp.

„Það má ekki vera of nálægt honum, en heldur ekki gefa honum of mikið pláss. Við verðum að stöðva hann saman sem lið,“ sagði Moisander.

Kolbeinn fékk hvíld um helgina þegar Ajax vann Heracles 2:1 í hollensku úrvalsdeildinni en maðurinn sem leysti hann af hólmi, Arek Milik, skoraði bæði mörk Ajax. Þó er talið líklegt að Kolbeinn snúi aftur í byrjunarlið liðsins í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert