Úrslitaleikur EM 2020 á Wembley

Kosið var í dag um það af Evrópska knattspyrnusambandinu, UEFA í Genf í Sviss hvar leikir Evrópumóts karlalandsliða í knattspyrnu fara fram í lokakeppni EM árið 2020. Mótið verður ekki haldið í einu landi eins og yfirleitt tíðkast með stórmót eins og EM, heldur verður leikið víðsvegar um Evrópu, í samtals 13 borgum.

Ákveðið var að undanúrslitaleikirnir og úrslitin verði á Wembley í London, en aðeins London og München sóttust eftir því að halda undanúrslitin og úrslitin. Hver borganna 12 sem halda leiki í riðlakeppninni og í 16-liða eða 8-liða úrslitunum fá 4 leiki hver borg. Ef landslið þess lands sem fær að hýsa leiki, vinnur sér þáttökurétt á EM 2020, er því landsliði tryggðir tveir leikir í borginni í sínu heimalandi. Það gæti því verið hagur í því fyrir lönd á borð við Þýskaland, Ítalíu og Spán að þeirra landslið fái líklega tvo heimaleiki á EM 2020.

Ekki mega fleiri en tvö lið frá löndum sem valin voru í dag, lenda saman í riðli þegar dregið verður í riðla EM 2020. Þá eru reglur um það að ekki megi vera meira en tveggja tíma flug milli leikstaða liða í riðlakeppninni.

Nítján borgir sóttust eftir því að fá að skipta með sér leikjunum á EM 2020, en aðeins 13 borgir voru valdar.

Úrslitaleikur og undanúrslit
London, Englandi

1 leikur í 8-liða úrslitum og 3 í riðlakeppni
München, Þýskalandi
Bakú, Aserbaídsjan
St. Pétursborg, Rússlandi
Róm, Ítalíu

1 leikur í 16-liða úrslitum og 3 í riðlakeppni
Kaupmannahöfn, Danmörku
Búkarest, Rúmeníu
Amsterdam, Hollandi
Dublin, Írlandi
Bilbao, Spáni
Búdapest, Ungverjalandi
Brüssel, Belgíu
Glasgow, Skotlandi

Þær sex borgir sem fengu neina leiki þrátt fyrir að hafa sótt um voru Cardiff í Wales, Minsk í Hvíta-Rússlandi, Stokkhólmur í Svíþjóð, Skopje í Makedóníu, Jerúsalem í Ísrael og Sofia í Búlgaríu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert