Fimmtán ára í norska landsliðið

Martin Ödegaard þykir afskaplega efnilegur leikmaður.
Martin Ödegaard þykir afskaplega efnilegur leikmaður. godset.no

Norska undrabarnið Martin Ödegaard er í landsliðshópnum sem Per-Mathias Högmo valdi fyrir komandi landsleiki við Möltu og Búlgaríu í undankeppni EM í knattspyrnu.

Ödegaard er aðeins 15 ára gamall en hefur slegið í gegn með Strömsgodset í norsku úrvalsdeildinni í ár og vakið athygli nokkurra af stærstu knattspyrnufélögum Evrópu. Hann lék fyrsta og eina A-landsleik sinn í ágúst, vináttulandsleik gegn Sameinuðu arabísku furstadæmunum, og varð þar með yngsti leikmaðurinn í sögu norska landsliðsins. Nú gæti hann hins vegar átt eftir að spila fyrstu alvöru mótsleiki sína fyrir Noreg.

„Martin er búinn að sýna sig og sanna á háu stigi í lengri tíma núna, og staðið sig vel í norsku úrvalsdeildinni. Hann var góður gegn Sameinuðu arabísku furstadæmunum, og einnig með U21-landsliðinu gegn Portúgal. Okkur finnst hann tilbúinn til að vera með í hópnum,“ sagði Högmo.

Norðmenn hafa leikið einn leik til þessa í undankeppni EM en þeir töpuðu gegn Ítölum á heimavelli, 2:0.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert