Sjúklega erfitt að mæta Íslandi

Íslenska U21-landsliðið keppir við Dani um að komast í lokakeppni …
Íslenska U21-landsliðið keppir við Dani um að komast í lokakeppni EM sem fram fer í Tékklandi á næsta ári. mbl.is/Kristinn

Jess Thorup, þjálfari U21-landsliðs Danmerkur í knattspyrnu karla, segir að þeir sem telji að Ísland sé auðveldur mótherji viti ekkert um íslenska knattspyrnu.

Danmörk og Ísland mætast í tveimur umspilsleikjum 10. og 14. október um það að komast í sjálfa lokakeppni Evrópumótsins 2015. Það yrði þá í annað sinn sem Ísland kæmist þangað því það tókst einnig árið 2011.

„Það eru margir á því að við höfum verið heppnir með að dragast gegn Íslandi, en það er fólk sem veit ekkert um íslenskan fótbolta. Íslendingar hafa verið að gera það gott bæði í ungmenna og A-landsliðinu,“ sagði Thorup.

Nú síðast vann A-landsliðið Tyrkland 3:0 í undankeppni EM. U21-liðið þeirra tapaði bara tveimur leikjum í undankeppninni, þar sem liðið var í riðli með Frökkum, og endaði í 2. sæti síns riðils eins og við, sagði Thorup.

Í síðasta leik sínum gerði Ísland 1:1-jafntefli á útivelli við stjörnum prýtt lið Frakka, og liðið tapaði bara 4:3 fyrir þeim á heimavelli í jöfnum leik. Þeir eru með nokkra hæfileikaríka leikmenn og margir þeirra spila erlendis, í löndum eins og Hollandi, Ítalíu og Danmörku, svo þetta verður sjúklega erfitt verkefni fyrir okkur, sagði Thorup.

Liðin mætast í Álaborg 10. október en seinni leikurinn fer fram á Laugardalsvelli þriðjudaginn 14. október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert