Gabi flæktur í ljótt svindl Zaragoza

Gabi er fyrirliði Spánarmeistara Atlético Madrid.
Gabi er fyrirliði Spánarmeistara Atlético Madrid. AFP

Spænski knattspyrnumaðurinn Gabi, fyrirliði Atlético Madrid og þáverandi fyrirliði Zaragoza, viðurkennir að hafa tekið þátt í því að hafa óeðlileg áhrif á úrslit leiks Zaragoza og Levante í maí 2011.

Zaragoza vann leikinn með tveimur mörkum frá Gabi og hélt þar með sæti sínu í spænsku 1. deildinni. Gabi bar vitni fyrir saksóknara í dag þar sem hann kvaðst einungis hafa gert það sem Agapito Iglesias, þáverandi eigandi Zaragoza, hefði beðið hann um.

Gabi var spurður hvort honum þætti ekki óeðlilegt að hafa fengið 120.000 evrur millifærðar á sinn reikning frá Iglesias, en Gabi sagðist hafa haldið að það væri vegna þess að félagið stefndi í gjaldþrot.

Gabi, sem var óvænt ekki í leikmannahópi Atlético gegn Juventus í Meistaradeildinni í gærkvöld vegna málsins, kvaðst saklaus og benti á að hann hefði lítinn hag haft af því að halda Zaragoza uppi. Hann hefði þegar verið búinn að semja við Atlético Madrid.

Tóku við 120.000 evrum

Samkvæmt málsgögnum munu 10-12 leikmenn Zaragoza, þar á meðal Gabi, hafa fengið 120.000 evrur millifærðar á sinn reikning í vikunni fyrir umræddan leik. Þessar upphæðir voru svo teknar út af reikningum degi fyrir leikinn, og talið að þær hafi verið látnar leikmönnum Levante í té með því skilyrði að þeir leyfðu Zaragoza að vinna leikinn.

Gabi kvaðst í samtali við El Mundo vera rólegur yfir öllu saman og reiknaði með að spila með Atlético Madrid á laugardaginn. Fleiri leikmenn verða kallaðir til yfirheyrslu en þar á meðal eru Diogo, Jorgé Lopez og Braulio.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert