Þrjú félög kærð vegna óláta stuðningsmanna

Fernando Muslera, markvörður Galatasaray, hendir hér blysi af vellinum í …
Fernando Muslera, markvörður Galatasaray, hendir hér blysi af vellinum í leiknum gegn Arsenal í gærkvöld. AFP

UEFA hefur kært Galatasaray, Dortmund og Basel vegna óláta stuðningsmanna liðanna á leikjum þeirra í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu í gær.

Í ólátunum fólst meðal annars að kveikt var á blysum og þeim ásamt fleiri hlutum kastað í átt að vellinum.

Málin verða tekin fyrir þann 16. október af aganefnd UEFA en næstu leikir liðanna í Meistaradeildinni fara fram í vikunni eftir að úrskurður verður kveðinn upp.

Stuðningsmenn Galatasaray hentu blysum inn á völlinn í 4:1-tapi liðsins gegn Arsenal. Hið sama var uppi á teningnum hjá stuðningsmönnum Dortmund í 3:0-sigrinum á Anderlecht.

Stuðningsmenn Basel munu hafa kastað hlutum inn á völlinn í 1:0-sigrinum á Liverpool. Svissnesku meistararnir eru á skilorði vegna óláta stuðningsmanna í Evrópudeildinni á síðustu leiktíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert