Fagnaði marki sem kostaði hann lífið (myndskeið)

Peter Biaksangzuala liggur óvígur í grasinu.
Peter Biaksangzuala liggur óvígur í grasinu. Ljósmynd/facebook

Peter Biaksangzuala, 23 ára gamall indverskur knattspyrnumaður, lést á sjúkrahúsi í gær en hann varð fyrir alvarlegum meiðslum þegar hann fagnaði marki sínu í leik með liði sínu í síðustu viku.

Biaksangzuala, sem þótti efnilegur fótboltamaður, jafnaði metin í 1:1 og fagnaði marki sínu með því að taka heljarstökk. Hann lenti illa á hryggnum en samherjar hans áttuðu sig ekki strax á því að hann væri slasaður og stukku ofan á félaga sinn og samfögnuðu honum.

Þeir áttuðu sig þó fljótlega að Biaksangzuala væri alvarlegar slasaður. Hann var fluttur á sjúkrahús en lést þar í gær af áverkum sínum en um alvarlegan mænuskaða var að ræða.

Í myndskeiðinu hér að neðan sést þegar Biaksangzuala fagnar marki sínu en það kemur í myndskeiðinu eftir 2,25 mínútur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert