Þjálfari Roma: Allt mér að kenna

Francesco Totti og félagar voru gjörsigraðir í kvöld.
Francesco Totti og félagar voru gjörsigraðir í kvöld. AFP

Rudi García, þjálfari Roma, segist taka alla ábyrgð á tapinu skelfilega gegn Bayern München í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Bayern skoraði sjö mörk gegn einu heimamanna í kvöld.

„Það var aðallega ég sem gerði mistök, þetta er ekki leikmönnunum að kenna. Það hvernig við nálguðumst leikinn í fyrri hálfleik var algjörlega mín sök,“ sagði García.

„Þetta var vitlaus leikaðferð. Við hefðum átt að loka betur á þá og reyna að nota skyndisóknir. Þetta var algjört hrun hvað varðar leikkerfi, en ekki hugarfar. Við vorum ekki nógu ákveðnir og leyfðum Bayern bara að spila,“ sagði García.

Daniele De Rossi, miðjumaður Roma, sagðist kenna í brjósti um stuðningsmenn liðsins sem mættu á völlinn í kvöld.

„Við verðum að læra af þessu tapi. Við biðum í ofvæni eftir þessum leik eins og öll borgin. Ég vorkenni stuðningsmönnunum. Þeir klöppuðu fyrir okkur í lokin og þetta er sárt því þeir eru stórkostlegir og eiga betra skilið en þetta,“ sagði De Rossi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert