FCK missti tvö stig í blálokin

Rúrik Gíslason leikur á Timmy Simons hjá Club Brugge í …
Rúrik Gíslason leikur á Timmy Simons hjá Club Brugge í leiknum í kvöld. AFP

Rúrik Gíslason, landsliðsmaður í knattspyrnu, og samherjar í FC Köbenhavn voru hársbreidd frá góðum útisigri í Evrópudeild UEFA í kvöld þegar þeir sóttu Club Brugge heim til Belgíu.

Daniel Amartey virtist hafa tryggt danska liðinu sigurinn þegar hann skoraði á 89. mínútu, 0:1, en í uppbótartímanum náði Victor Vázquez að jafna metin fyrir Club Brugge og lokatölur urðu 1:1.

Rúrik var ekki í byrjunarliðinu í kvöld en kom inná sem varamaður á 65. mínútu.

Torino vann HJK Helsinki, 2:0, og er með 7 stig á toppi B-riðils. Club Brugge er með 5 stig, FC Köbenhavn 4 og HJK ekkert stig. Það stefnir því í harðan slag FCK og Club Brugge um annað sæti riðilsins en liðin mætast á Parken eftir tvær vikur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert