Fjölmennið gefur lítið forskot

Real Madrid er tífaldur Evrópumeistari.
Real Madrid er tífaldur Evrópumeistari. AFP

Hvers vegna hafa sigurlaunin í Meistaradeild karla í knattspyrnu, sem áður hét Evrópukeppni meistaraliða, jafn sjaldan fallið höfuðborgarliðum í skaut og raun ber vitni?

Merkilegt er að kíkja á tölfræðina yfir sigurvegara keppninnar frá því hún hóf göngu sína árið 1956. Af þeim tuttugu og tveimur liðum sem hafa unnið keppnina hafa aðeins fimm þeirra komið frá höfuðborgum: Real Madrid, Benfica, Rauða stjarnan frá Belgrað, Steaua Búkarest og Chelsea. Svo virðist sem flest af stærstu og vinsælustu fótboltafélögunum í Evrópu komi ekki úr höfuðborgunum.

Hér væri fáránlegt að taka það ekki fram að Real Madrid er sannarlega sigursælasta lið í sögu keppninnar með tíu sigra. Hins vegar hefur rekstur félagsins óneitanlega oft fylgt einkennilegum lögmálum. Liðið var uppáhaldsfélag einræðisherrans Francos og vann fyrstu sex sigra sína í keppninni á meðan hann var ennþá sprækur. Real vann fyrstu fimm árin og næstu tvö árin vann Benfica frá Lissabon. Þáverandi einræðisherra Portúgals, Salazar, studdi Benfica og fyrstu sjö ár keppninnar eru því nokkuð merkileg hvað þetta varðar. Við þetta má bæta að bæði Steaua Búkarest og Rauða stjarnan voru undir stjórn einræðisherra þegar þau unnu keppnina.

Ekki er því haldið fram hér að einræðisherrarnir hafi getað haft áhrif á úrslit sjálfrar Evrópukeppninnar, þó voru sjálfsagt einhverjir þeirra með puttana í keppnunum heima fyrir. Hins vegar stýrðu þeir miklu fjármagni inn í höfuðborgirnar og þar fór fram mikil uppbygging sem gagnaðist þessum knattspyrnufélögum. Auk þess leit Franco á Real Madrid sem ígildi góðrar auglýsingar fyrir Spán.

Ef við horfum ekki bara á höfuðborgirnar, heldur einnig á fjölmennustu borgir Evrópu, þá eru þær Istanbúl, Moskva, London og Sankti Pétursborg. Eru þær í nokkrum sérflokki með 5 milljónir íbúa eða meira. Næstar koma Berlín, Aþena, Madrid, Kiev, Róm og París samkvæmt síðasta manntali sem ég rakst á. Einungis London, Madrid og Kiev hafa eignast sigurvegara í Meistaradeildinni og London náði því raunar ekki fyrr en Chelsea sigraði árið 2012.

Sjá alla greinina í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert