Kane með þrennu en klúðraði í markinu

Harry Kane fagnar einu marka sinna í kvöld.
Harry Kane fagnar einu marka sinna í kvöld. AFP

Tottenham vann stórsigur á gríska liðinu Asteras Tripolis, 5:1, í Evrópudeild UEFA í knattspyrnu á White Hart Lane í London í kvöld.

Harry Kane, framherji Tottenham, kom heldur betur mikið við sögu. Hann skoraði þrjú af mörkum Tottenham en á lokamínútum leiksins var Hugo Lloris, markvörður liðsins, rekinn af velli og þá fór Kane í markið. Hann gerði það ekki gott - fékk á sig einstaklega klaufalegt mark beint úr aukaspyrnu á 89. mínútu, sem Jeronimo Barrales skoraði.

En Kane var eftir sem áður maður leiksins og Eric Lamela gaf honum reyndar lítið eftir því Argentínumaðurinn skoraði hin tvö mörkin. Þrjú fyrstu mörk Tottenham, eitt frá Kane og tvö frá Lamela, voru sérlega glæsileg.

Þetta  var kærkominn sigur hjá Tottenham eftir tvö jafntefli í riðlinum. Besiktas og Tottenham eru nú með 5 stig, Asteras 4 og Partizan Belgrad ekkert þegar fyrri umferðinni er lokið.

Tottenham á einn heimaleik eftir, gegn Partizan Belgrad, en á eftir útileikina við Asteras og Besiktas.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert