Klopp öruggur í starfi hjá Dortmund

Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. AFP

Jürgen Klopp, þjálfari þýska knattspyrnuliðsins Dortmund, er öruggur í starfi hjá þýska liðinu Borussia Dortmund þrátt fyrir að því hafi ekki tekist að vinna í síðustu fimm leikjum sínum í þýsku deildinni. Þetta segir Hans-Joachim Watzke, aðalmaðurinn í stjórn Dortmund.

Byrjun Dortmund í deildinni í ár er sú versta í 27 ár. Liðið er í 14. sæti með aðeins sjö stig eftir átta umferðir en á síðustu liðið endaði félagið í öðru sæti á eftir Bayern München.

„Ég hef alltaf sagt að þjálfarinn muni ákveða hvenær hans tími hjá Dortmund er liðinn og það hefur ekkert breyst. Það eru engin þreytumerki á honum. Við höfum verið sólarmegin og náð miklum árangri og því skyldum við vera með neikvæðar hugsanir þegar á móti blæs í fyrsta skipti?“ sagði Watzke við þýska blaðið Bild.

Klopp, sem gerði Dortmund að þýskum meisturum 2011 og 2012, er samningsbundinn félaginu fram til júní 2018.

Dortmund hefur oftar en ekki þurft að selja sína bestu leikmenn og nokkur dæmi eru um að þeir hafi farið til erkifjendanna í Bayern München. Landsliðsmaðurinn Marco Reus, sem er samningsbundinn Dortmund til 2017, gæti orðið sá næsti en sterkur orðrómur er í gangi um að hann fari til Bæjara í lok leiktíðar. Bæði Mario Götze og Robert Lewandowski fóru frá Dortmund til Bayern, Lewandowski í ár en Götze í fyrra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert