Óvissa hjá Pálma Rafni

Pálmi Rafn Pálmason.
Pálmi Rafn Pálmason. Ljósmynd/lsk.no

Knattspyrnumaðurinn Pálmi Rafn Pálmason, leikmaður norska úrvalsdeildarliðsins Lilleström, segir óvíst hvað taki við hjá sér eftir leiktíðina en samningur hans við félagið rennur út eftir tímabilið.

„Ég veit svona um það bil jafnmikið og þú. Ég er að renna út á samningi og er svona að skoða mín mál. Lilleström vill halda mér og er búið að tilkynna mér það en fjárhagsstaða félagsins er erfið og það er ljóst að framundan er niðurskurður. Við höfum ekkert farið út í neinar viðræður enda á félagið eftir að ráða þjálfara,“ sagði Pálmi Rafn við Morgunblaðið en hann er að ljúka sinni þriðju leiktíð með Lilleström.

Eins og fram hefur komið er Rúnar Kristinsson sterklega orðaður við þjálfarastöðuna hjá Lilleström fyrir næstu leiktíð. Spurður út í þau mál sagði Pálmi Rafn: „Ég les það hjá ykkur að Rúnar sé að taka við en við leikmennirnir vitum ekki neitt. Ég stóla bara á ykkur. Félagar mínir í liðinu hafa eitthvað verið að spyrja mig út í þessi mál en ég veit jafnlítið og þeir. Rúnar virðist vera heitasta nafnið,“ sagði Pálmi.

Spurður hvort það kitli hann að spila undir stjórn Rúnars fari svo að hann taki við þjálfun liðsins sagði Húsvíkingurinn: „Ef Rúnar verður ráðinn og hann vill hafa mig áfram þá er ég opinn fyrir því ef ég næ samkomulagi við félagið. Það er bara allt opið hjá mér. Það getur líka vel verið að ég komi heim og það er líka möguleiki á að ég verði áfram úti,“ segir Pálmi.

Sjá allt viðtalið við Pálma Rafn í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert