Albanir ætla að áfrýja

Serbneski varnarmaðurinn Stefan Mitrovic grípur fánann og í kjölfarið varð …
Serbneski varnarmaðurinn Stefan Mitrovic grípur fánann og í kjölfarið varð allt vitlaust á vellinum í Belgrad. AFP

Knattspyrnusamband Albaníu hefur þegar sagt að það muni áfrýja úrskurði UEFA sem í morgun tilkynnti að Serbíu hefði verið dæmdur 3:0 sigur í leik liðanna í undankeppni EM fyrr í þessum mánuði, auk þess sem knattspyrnusambönd  beggja þjóðanna voru sektuð um 100 þúsund evrur. AFP skýrir frá þessu.

Fána með albönskum merkjum var flogið rétt yfir vellinum með fjarstýrðum dróna og þegar einn leikmanna Serba reif hann niður brutust út slagsmál á milli leikmannanna, en í framhaldi af því ruddust áhorfendur inná völlinn, réðust að albönsku leikmönnunum, og leiknum var hætt í kjölfarið.

Serbum var dæmdur sigurinn en stigin voru jafnframt dregin af þeim. Úrslit leiksins eru því 3:0 en Serbar eru áfram bara með eitt stig eftir tvo leiki í riðlinum.

„Það er ekkert réttlæti í þessu hjá UEFA. Albanía á að fá stigin þrjú úr þessum leik og með þessu erum við sviptir því sem við verðskuldum,“ sagði Gianni De Biazi, þjálfari albanska liðsins, við AFP í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert