Serbar sigra en tapa stigum

Stefan Mitrovic landsliðsmaður Serbíu grípur fánann sem olli uppnáminu í …
Stefan Mitrovic landsliðsmaður Serbíu grípur fánann sem olli uppnáminu í Belgrad. AFP

Knattspyrnusamband Evrópu hefur úrskurðað Serbíu sigurvegara í leiknum við Albaníu í undankeppni Evrópumótsins fyrr í þessum mánuði, 3:0, en jafnframt dregið þrjú stig af Serbum og sektað knattspyrnusambönd beggja þjóða um 100 þúsund evrur.

Allt fór í háaloft í leiknum þegar fjarstýrður dróni með albanskan fána sveif yfir vellinum í Belgrad og einn leikmanna Serba náði að rífa hann niður. Áhorfendur ruddust inn á völlinn og leiknum var hætt. 

Serbar þurfa jafnframt að spila næstu tvo heimaleiki sína í keppninni án áhorfenda. Sá fyrri er gegn Dönum 14. nóvember en sá næsti þar á eftir er ekki á dagskrá fyrr en 4. september á næsta ári þegar Armenar koma í heimsókn.

Knattspyrnusamböndin tvö fá skriflega skýrslu frá UEFA á næstu dögum og hafa eftir það þrjá daga til að ákveða hvort þau áfrýi úrskurðinum.

Leikmenn og áhorfendur í slagsmálum á vellinum.
Leikmenn og áhorfendur í slagsmálum á vellinum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert