Suárez: Aðrir hefðu fótbrotið andstæðinginn

Luis Suárez á æfingu með Barcelona í dag fyrir stórleikinn …
Luis Suárez á æfingu með Barcelona í dag fyrir stórleikinn á morgun. AFP

Luis Suárez segist vera á réttri leið í lífinu nú þegar fjögurra mánaða banni hans fyrir að bíta Giorgio Chiellini á HM í Brasilíu er að ljúka. Hann verður í eldlínunni með Barcelona í El Clásico gegn Real Madrid á morgun.

„Ég held að allir þessir slæmu hlutir tilheyri núna fortíðinni. Ég tel að ég sé á réttri leið núna, í samvinnu við rétta fólkið sem getur hjálpað mér,“ sagði Suárez í einkaviðtali við The Guardian.

„Það bregðast allir við með mismunandi hætti þegar þeir þurfa að verja sig. Í mínu tilviki brotnaði ég undan pressunni og spennunni með þessum hætti. Aðrir leikmenn hefðu kannski brugðist við með því að fótbrjóta andstæðinginn eða kýla hann og nefbrjóta. Það sem ég gerði við Chiellini er talið verra. Ég skil af hverju það er svona illa séð að maður bíti annan mann,“ sagði Suárez.

Luis Enrique, þjálfari Barcelona, staðfesti í dag að Suárez myndi spila á morgun og það verður því fyrsti alvöruleikur Úrúgvæjans frá því í leiknum afdrifaríka gegn Ítalíu á HM. El Clásico hefst á Santiago Bernabéu kl. 16.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert