Enrique: Ekki mistök að láta Suárez byrja

Luis Suárez í baráttu við Sergio Ramos í sínum fyrsta …
Luis Suárez í baráttu við Sergio Ramos í sínum fyrsta alvöru leik fyrir Barcelona í dag. AFP

Luis Enrique þjálfari Barcelona sagði Real Madrid hafa átt skilið að vinna í dag þegar liðin mættust í El Clásico á Santiago Bernabéu í Madrid, þar sem heimamenn unnu 3:1-sigur.

Barcelona komst yfir í leiknum með marki Neymars en Real var sterkari aðilinn eftir það.

„Við byrjuðum leikinn vel og fengum færi til að komast í 2:0 sem við nýttum ekki. Það var dýrkeypt og þeir verðskulduðu að jafna metin. Við hættum að skapa færi eftir að þeir komust yfir og þeir bættu svo við þriðja markinu eftir okkar mistök,“ sagði Enrique. Hann tefldi Luis Suárez fram í byrjunarliði en þetta var fyrsti leikur Úrúgvæans eftir fjóra mánuði í banni.

„Ég sé ekki eftir því að hafa látið hann byrja. Hann hafði alveg nægan hraða og var betri en ég bjóst við. Hann var hins vegar búinn að fá nóg eftir klukkutíma leik og þess vegna skipti ég honum út af,“ sagði Enrique. Undir hans stjórn hefur Barcelona farið á kostum en tapað „stóru“ leikjunum, gegn PSG í Meistaradeildinni og í dag gegn Real

„Við skoðum bara stöðuna í lok leiktíðarinnar. Við áttum meira skilið gegn PSG en það sama má ekki segja um leikinn í dag,“ sagði Enrique.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert