Öruggt hjá Real Madrid í El Clásico

Real Madrid varð í dag fyrst liða til að skora gegn Barcelona í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu á þessari leiktíð þegar liðið vann öruggan 3:1-sigur þrátt fyrir að hafa lent undir snemma leiks. Real er því með 21 stig, einu stigi á eftir Barcelona sem er á toppnum.

Luis Suárez var í byrjunarliði Barcelona í sínum fyrsta leik eftir fjögurra mánaða bann og hann átti sendingu á Neymar þegar Brasilíumaðurinn skoraði fyrsta mark leiksins eftir aðeins þrjár mínútur.

Heimamenn í Real voru fljótir að jafna sig eftir markið og Karim Benzema átti meðal annars marktilraunir sem fóru í þverslá og stöng, áður en Cristiano Ronaldo jafnaði metin með marki úr vítaspyrnu. Þetta var 16. mark Ronaldos í 8 leikjum í deildinni.

Real komst í 2:1 snemma í seinni hálfleik með skallamarki frá Pepe, eftir sendingu Toni Kroos. Real gerði svo út um leikinn með marki frá Benzema eftir skyndisókn, í kjölfar þess að Isco vann boltann af Andrési Iniesta úti við hliðarlínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert