Tvísýn staða hjá Brann

Birkir Már Sævarsson leikur með Brann.
Birkir Már Sævarsson leikur með Brann. mbl.is/Eggert

Birkir Már Sævarsson og samherjar í Brann urðu að sætta sig við jafntefli á heimavelli gegn Mjöndalen í kvöld, 1:1, í fyrri umspilsleik liðanna um sæti í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Brann endaði í þriðja neðsta sæti deildarinnar í ár og varð því að leika við Mjöndalen, sem endaði í þriðja sæti B-deildar og vann umspil liðanna sem enduðu þar í þriðja til sjötta sæti.

Seinni leikurinn fer fram á heimavelli Mjöndalen á miðvikudaginn og þá kemur í ljós hvort smáliðið, sem ekki hefur spilað í efstu deild frá 1992, eða stóra félagið frá Bergen leikur í deild þeirra bestu á næsta ári.

Birkir Már Sævarsson lék allan leikinn með Brann í kvöld. Þetta eru líklega kveðjuleikir hans með félaginu en hann hefur verið sterklega orðaður við Hammarby í Svíþjóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert