Ríkisstjórn Bretlands setur pressu á FIFA

Sepp Blatter
Sepp Blatter AFP

Íþróttamálaráðherra Bretlands, Sajid David, skorar á Sepp Blatter, forseta alþjóða knattspyrnusambandsins FIFA, að gera skýrslu um HM 2018 og 2022 opinbera í bréfi sem hann ritaði til Blatters.

FIFA lét gera skýrslu þar sem vinnubrögðin í aðdraganda kosninga vegna mótshaldsins á HM 2018 og 2022 voru rannsökuð. Spillingarmál tengd FIFA hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlum á síðustu árum og hafa verið tengd við valið á gestgjöfum í þessum tveimur lokakeppnum, Rússland og Katar.

FIFA hefur birt 42 blaðsíðna úrdrátt úr skýrslunni en höfundur hennar, Bandaríkjamaðurinn Michael Garcia, er sjálfur ósáttur við úrdráttinn og sagði opinberlega að hann gæfi ekki nákvæma mynd af hans niðurstöðu.

Sajid David segir samkvæmt BBC að FIFA þurfi að gera skýrsluna opinbera til þess að eiga von um að endurheimta trúverðugleika sinn. Verði það ekki gert muni trúverðugleiki sambandsins skaðast enn frekar sem og íþróttin í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert