Færeyjar upp um 82 sæti hjá FIFA

Færeyingar fagna sigrinum magnaða á Grikkjum.
Færeyingar fagna sigrinum magnaða á Grikkjum. AFP

Karlalandslið Færeyinga í knattspyrnu er hástökkvari mánaðarins á heimslista FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandsins, sem gefinn var út í dag.

Færeyingar voru í 187. sæti af 209 aðildarþjóðum FIFA í október en fyrr í þessum mánuði unnu þeir sinn fræknasta sigur í sögunni þegar þeir lögðu Grikki á útivelli, 1:0.

Þessi sigur gefur þeim þvílíkan stigafjölda að þeir flugu upp í 105. sæti listans, eða upp um 82 sæti. Færeyska liðið hefur aðeins einu sinni verið ofar en það komst í 104. sæti árið 1999.

Til samanburðar við stórar þjóðir fóru Færeyingar uppfyrir Kanadamenn og eru aðeins þremur sætum á eftir Ástralíu.

Færeyjar eru núna í 44. sæti af 54 aðildarþjóðum UEFA og fóru uppfyrir Moldóvu, Georgíu, Lúxemborg, Liechtenstein, Aserbaídsjan, Kasakstan og Möltu. 

San Marínó (180. sæti) og Andorra (201. sæti) eru neðstar Evrópuþjóðanna á listanum en San Marínó fór upp um 28 sæti eftir sitt óvænta jafntefli gegn Eistlandi. Gíbraltar, nýjasta aðildarþjóð UEFA, fær ekki sæti á heimslistanum þar sem þjóðin hefur ekki verið viðurkennd sem aðildarþjóð FIFA.

Ísland fellur um fimm sæti á FIFA-listanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert