Pelé kominn á gjörgæslu - eða ekki

Pelé á fréttamannafundi fyrr á þessu ári.
Pelé á fréttamannafundi fyrr á þessu ári. AFP

Brasilíumaðurinn Pelé, einn frægasti knattspyrnumaður allra tíma og sá besti að margra mati, er kominn á gjörgæslu á Albert Einstein sjúkrahúsinu í Sao Paulo og ástand hans er sagt hafa versnað hratt í dag.

Pelé var lagður inná sjúkrahúsið á mánudaginn með þvagfærasýkingu og líðan hans var þá sögð stöðug. 

Nú hefur sjúkrahúsið skýrt frá því í yfirlýsingu að ástand hans sé óstöðugt og hann hafi af þeim sökum verið fluttur á gjörgæsluna. Sendar verði út frekari tilkynningar um líðan hans eftir því sem ástæða verði talin til.

Pelé var lagður inná sama sjúkrahús fyrr í þessum mánuði vegna nýrnasteinakasts og gekkst þá undir vel heppnaða aðgerð. Hann er 74 ára gamall og varð þrisvar heimsmeistari með Brasilíumönnum, 1958, 1962 og 1970.

Uppfært kl. 17:06:

Talsmaður Pelé segir að ástand hans sé alls ekki eins slæmt og enskumælandi fjölmiðlar hafi gefið til kynna. Svo virðist sem „sérstök gæsla“ hafi verið túlkuð sem „gjörgæsla“. Engin hætta sé á ferðum, Pelé hafi fyrst og fremst verið fluttur til á sjúkrahúsinu til að forðast ónæði en afar margir hafi viljað heimsækja hann.

Reuters hefur ennfremur skýrt frá því að talsmaður sjúkrahússins hafi borið til baka fregnir um að Pelé sé á gjörgæslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert