Garcia segir sig úr siðanefnd FIFA

Mörg spjót beinast að Sepp Blatter vegna Garcia-skýrslunnar.
Mörg spjót beinast að Sepp Blatter vegna Garcia-skýrslunnar. AFP

Bandaríski lögfræðingurinn Michael Garcia, sem stýrði rannsókninni á úthlutun gestgjafahlutverks heimsmeistarakeppni karla í knattspyrnu 2018 og 2022, hefur sagt sig úr siðanefnd FIFA.

Garcia tilkynnti þetta í ítarlegri yfirlýsingu í dag en hann var afar óhress með að 430 blaðsíðna skýrsla sem hann gerði um rannsóknina skyldi ekki vera birt en í stað þess var gerður úr henni 42 blaðsíðna útdráttur. Garcia sagði að sá útdráttur mistúlkaði sínar niðurstöður og í honum væru villur og þýðingarmiklum atriðum væri sleppt. FIFA tilkynnti í gær að kvörtun Garcia vegna útdráttarins yrði ekki tekin til greina. 

Garcia gagnrýnir stjórn FIFA harðlega í yfirlýsingu sinni en kveðst ekki ætla að fara lengra með mál sitt þar sem það myndi ekki þjóna neinum tilgangi. Engin nefnd, rannsakandi eða dómstóll gæti breytt þessari stofnun.

Sívaxandi þrýstingur hefur verið settur á Sepp Blatter, forseta FIFA, um að birta skýrslu Garcia í heild sinni. Fréttamaður spurði Blatter í Marrakesh í Marokkó í dag, hvers vegna hann væri með skýrsluna í felum. „Enginn er að fela neitt, þakka þér fyrir," sagði Blatter um leið og hann steig inn í bifreið og hvarf á brott.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert