FIFA ætlar að birta Garcia-skýrsluna

Michael Garcia skrifaði 430 síðna skýrslu um úthlutunina á HM …
Michael Garcia skrifaði 430 síðna skýrslu um úthlutunina á HM 2018 og 2022. AFP

Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, ætlar að birta skýrslu Michaels Garcia um aðdragandann að úthlutun heimsmeistaramóta karla árin 2018 og 2022 til Rússlands og Katar.

Jim Boyce, varaforseti FIFA, skýrði fréttamönnum frá þessu í Marrakesh í Marokkó í dag en þar hefur stjórn sambandsins setið á fundum undanfarna tvo daga.

Skýrsla Garcia hefur að vonum verið mikið til umræðu en bandaríski lögfræðingurinn sagði sig í vikunni úr siðanefnd FIFA í mótmælaskyni vegna meðhöndlun skýrslunnar innan sambandsins. Í stað þess að hún væri birt, allar 430 blaðsíðurnar, gerði Hans-Joachim Eckert, siðanefndarformaður FIFA, útdrátt úr henni, 42 blaðsíður, og Garcia lýsti því yfir að sá útdráttur væri gallaður á margan hátt og mörgu mikilvægu væri sleppt.

Boyce sagði að ekki hefði komið til atkvæðagreiðslu innan stjórnar FIFA um birtingu skýrslunnar, hún hefði verið samþykkt samhljóða. Þó yrði það að ráðast af því hvar heimilt væri, lagalega séð, að birta hana.

„Ég er ánægður með að framkvæmdastjórn FIFA skyldi ákveða, án atkvæðagreiðslu, að birta þessa skýrslu. Það sýnir að stjórnarmenn FIFA vilja gagnsæi, og því fyrr sem við getum farið að tala um fótboltann sjálfan, því betra," sagði Boyce við Press Association Sport í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert