Klopp verður ekki rekinn

Jurgen Klopp.
Jurgen Klopp. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Borussia Dortmund, mun fá tækifæri til að snúa gengi liðsins við. Þetta fullyrðir yfirmaður íþróttamála hjá félaginu, Michael Zorc, í samtali við þýska blaðið Kicker. 

Dortmund fer inn í vetrarfrí þýsku Bundesligunnar í fallsæti og hefur liðið nú þegar tapað tíu leikjum í deildinni. Nokkrir fastamenn hafa verið meiddir og liðinu hefur ekki tekist að finna taktinn í deildinni þrátt fyrir að hafa komist örugglega áfram í Meistaradeildinni þar sem Dortmund vann fyrstu fjóra leiki sína í riðlakeppninni. 

Dortmund tapaði fyrir Bremen á laugardaginn og að leiknum loknum funduðu þeir Zorg, Klopp og Hans-Joachim Watzke, framkvæmdastjóri félagsins, um þá stöðu sem liðið er í. Að sögn Zorg varð niðurstaða fundarins sú að Klopp fái alla vega að stjórna liðinu út keppnistímabilið. 

Klopp hefur tvívegis gert Dortmund að meisturum auk þess sem liðið komast í úrslit Meistaradeildarinnar 2013 undir hans stjórn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert