„Rautt eða dauði“

Borðinn sem stuðningsmenn Standard flögguðu á leiknum.
Borðinn sem stuðningsmenn Standard flögguðu á leiknum. AFP

Stuðningsmenn belgíska knattspyrnuliðsins Standard frá Liege hafa hlotið mikla gagnrýni fyrir stóran borða sem þeir breiddu um áhorfendastúkuna í grannaslag gegn Anderlecht í belgísku úrvalsdeildinni í dag.

Borðinn sýndi grímuklæddan mann haldandi á blóðugri sveðju í annarri hendi og afhöggvið höfuð Stevens Defour í hinni, en hann er fyrrum fyrirliði Standard. Á borðanum stendur svo stórum stöfum „Rautt eða dauði,“ sem vísar til búninga Standard sem eru rauðir.

Defour var áður fyrirliði Standard, en hann yfirgaf félagið fyrir þremur árum og gekk til liðs við Porto í Portúgal. Hann sneri hins vegar aftur til Belgíu í sumar og gekk til liðs við Anderlecht, eitthvað sem féll ekki vel í kramið hjá stuðningsmönnum Standard.

Borðinn féll heldur ekki í kramið hjá Defour, sem brást við með því að sparka boltanum upp í stúku til áhorfenda og fékk í kjölfarið sitt annað gula spjald og þar með rautt. Standard vann leikinn 2:0.

„Það er ekkert sem bannar svona borða í reglunum en við munum sjá hvað hægt er að gera. Þetta er óásættanlegt bæði fyrir Standard og Anderlecht,“ sagði Bob Madou, talsmaður belgíska knattspyrnusambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert